Vatnaskil hafa tekið þátt í fjölmörgum verkefnum víða um heim sem varða uppbyggingu og rekstur jarðhitasvæða. Sú þjónusta sem Vatnaskil bjóða upp á felst meðal annars í smíði hugmyndalíkana af jarðhitakerfum, hönnun og greiningu holuprófa, mat á afkastagetu jarðhitasvæða ásamt ráðgjöf um nýtingu jarðhitaauðlinda bæði með tilliti til nýtingar- og sjálfbærnisjónarmiða. Vatnaskil beita margvíslegum greiningaraðferðum, svo sem tölulegum reiknilíkönum, allt frá einföldum rúmmálsáætlunum, flóknari þjöppuðum geymalíkönum og allt upp í margfasa og tímaháð þrívíð forðafræðilíkön.
Vatnaskil hafa þróað fjölmörg hugmynda- og reiknilíkön í jarðhitaverkefnum sínum. Við þá vinnu hefur fyrirtækið notað hugbúnað sem þróaður hefur verið innanhúss, svo sem AQUA3D sem og samtengingum við landupplýsingakerfi, ásamt vel þekktum og þrautreyndum hugbúnaðarpökkum líkt og TOUGH2/iTOUGH2. Vatnaskil hafa einnig átt í samstarfi við jarðvísindadeild Lawrence Berkeley National Laboratory í Kaliforníu um þróun iTOUGH2 hugbúnaðarins.
Sérfræðingar fyrirtækisins hafa einnig sinnt kennslustörfum við Háskóla Íslands og Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna (UNU-GTP) um árabil ásamt því sem þeir hafa haldið námskeið og fyrirlestra víða um heim.